2.11.2010 | 17:03
Hræðileg árás breytist í rómantíska björgun
Það er eitthvað heillandi við hetjulega atburði sem eiga sér stað í raunveruleikanum, sérstaklega þegar aðstæður eru þannig að maður gæti haldið að það væri einsog brot úr skáldsögu. Þá hitnar óneitanlega hjartað í manni.
Hin 19 ára Elyse Frankcom var að synda með höfrungum þegar hún svo óheppilega lenti í kjaftinum á stærðarinnar hákarli. Til allrar hamingju var henni skyndilega bjargað þegar hugrakkur sundgarpur sem varð vitni að þessu lét til skarar skríða og bjargaði stúlkunni. Óhræddur greip hann í sporðinn á hákarlinum sem hrökklaðist í burtu, hann synti til botns að sækja dömuna þegar hún sökk í sjóinn og bjargaði lífi hennar.
Ég hef ekki hugmynd um hvort það sé rómantískur hugur á bakvið þessa hugrökku björgun en þar sem ég er svo mikill sucker fyrir rómantík þá ímynda ég mér það. Að maðurinn hafi haft auga með hinni yndisfögru Elyse sem varð fyrir hræðilegri árás hákarls og fékk þar með dýrslegan styrk til að bjarga henni. Í mínum huga endar þessi saga þannig að hann sat yfir henni á spítalanum þar til hún náði fullum bata og þau urðu ástfangin, síðan giftust þau og eignuðust mörg börn.
Endir.
Greip í sporðinn á hákarli og bjargaði stúlku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2009 | 12:25
Fyrsta bloggfærslan
Ég er nú ekki þekkt fyrir að hafa sterkar pólitískar skoðanir en þó hef ég alltaf verið með sterkar skoðanir á mörgum hlutum. Þar sem ég er ólétt heimavinnandi húsmóðir um þessar mundir þá verður gott að nota þetta blogg mér til afþreyingar þegar ég hef dauða stund aflögu.
Það má með sanni segja að nú eru ekki bara erfiðir tímar í þjóðfélaginu heldur einnig skrítnir. Fólk sem áður hafði ef til vill ekki sterkar skoðanir vill láta ljós sitt skína og leggja sitt af mörkum við að koma með skynsamlegar lausnir og útskýringar á vandamálum sem nú blasa við. Svo virðist sem allir hafi eitthvað um málin að segja. Pólitísk kreppa, svikamillur, ósvífnir útrásarvíkingar, alheims efnahagskreppa og svínaflensufaraldur er eitthvað sem snertir okkur öll og ýmsar skoðanir líta dagsins ljós hvern dag. Þar er ég ekki undanskilin.
Ég hef áhuga á fólki og mannlegri hegðun og öllu sem tengist mannlegu atferli. Margt mætti betur fara og held að allir séu sammála um það að sameiginlegt markmið er að hafa heiminn eins ákjósanlegan og hægt er. En mismunandi skoðanir og nálganir að því takmarki hafa áhrif á það hvernig útkoman verður.
Ég er ófrísk og á von á öðru barni í haust. Það sem brennur mest á hjarta mínu er afkoma fjölskyldunnar minnar. Hef áhuga á því hvernig ríkisstjórnin mun tryggja það að fjölskyldur komist af í þessu samfélagi, hvernig þeir munu skipuleggja niðurskurði og verðlag og atvinnumál þannig að það sé hægt að lifa sómasamlegu lífi. Ég hef áhyggjur af svínaflensunni og afleiðingum hennar.
Það er margt sem ég mun koma til með að tjá mig um en ég læt þessa kynningu nægja að sinni.
kveðja Rakel
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)