29.7.2009 | 12:25
Fyrsta bloggfærslan
Ég er nú ekki þekkt fyrir að hafa sterkar pólitískar skoðanir en þó hef ég alltaf verið með sterkar skoðanir á mörgum hlutum. Þar sem ég er ólétt heimavinnandi húsmóðir um þessar mundir þá verður gott að nota þetta blogg mér til afþreyingar þegar ég hef dauða stund aflögu.
Það má með sanni segja að nú eru ekki bara erfiðir tímar í þjóðfélaginu heldur einnig skrítnir. Fólk sem áður hafði ef til vill ekki sterkar skoðanir vill láta ljós sitt skína og leggja sitt af mörkum við að koma með skynsamlegar lausnir og útskýringar á vandamálum sem nú blasa við. Svo virðist sem allir hafi eitthvað um málin að segja. Pólitísk kreppa, svikamillur, ósvífnir útrásarvíkingar, alheims efnahagskreppa og svínaflensufaraldur er eitthvað sem snertir okkur öll og ýmsar skoðanir líta dagsins ljós hvern dag. Þar er ég ekki undanskilin.
Ég hef áhuga á fólki og mannlegri hegðun og öllu sem tengist mannlegu atferli. Margt mætti betur fara og held að allir séu sammála um það að sameiginlegt markmið er að hafa heiminn eins ákjósanlegan og hægt er. En mismunandi skoðanir og nálganir að því takmarki hafa áhrif á það hvernig útkoman verður.
Ég er ófrísk og á von á öðru barni í haust. Það sem brennur mest á hjarta mínu er afkoma fjölskyldunnar minnar. Hef áhuga á því hvernig ríkisstjórnin mun tryggja það að fjölskyldur komist af í þessu samfélagi, hvernig þeir munu skipuleggja niðurskurði og verðlag og atvinnumál þannig að það sé hægt að lifa sómasamlegu lífi. Ég hef áhyggjur af svínaflensunni og afleiðingum hennar.
Það er margt sem ég mun koma til með að tjá mig um en ég læt þessa kynningu nægja að sinni.
kveðja Rakel
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.